Verkfæri þjóðminninga: Tyrkjaránið í skólabókunum (seinni hluti)

Höfundur: Þorsteinn Helgason.

Í þessum skrifum sem skipt er í tvo hluta er kannað hvernig fjallað hefur verið um Tyrkjaránið í sögukennslubókum frá 1880 til þessa dags. Hér er þráðurinn tekinn upp um 1960. Fram kemur að þjóðhverf framsetning frásagnarinnar af Tyrkjaráninu mótaðist á fyrri hluta tuttugustu aldar en atburðurinn var svo sérkennilegur að erfitt var að steypa hann fullkomlega í fast mót. Þegar leið á öldina tók að brydda á fleiri sjónarmiðum með aukinni alþjóðasýn. Tyrkjaránsins er ekki getið í námsgögnum sem fylgdu róttækri samþættingu sögu og fleiri greina í grunnskólanum undir heitinu samfélagsfræði og birtist í námskrá árið 1977. Það hefði þó verið mjög í anda hennar að taka þennan fjölþætta og alþjóðlega atburð fyrir og útfærslan hefði líklega orðið frumleg. Í stað þess kom hefðbundnari framsetning þar sem staða ránsins í sameiginlegri minningu þjóðarinnar – frægð atburðarins – ryður því braut inn í námsgögnin, óháð samhengi þess við annað efni bókanna. Öðru máli gegnir um Aldir bændasamfélagsins sem var ætluð fyrir framhaldsskóla og fjallaði um formgerðir hagsögu og félagssögu. Þar átti Tyrkjaránið ekki heima en fann sér þó leið bakdyramegin með því að höfundur nemendaverkefna setti það inn sem viðfangsefni. Í aðalnámskrá fyrir grunn- og framhaldsskóla sem kom út 1999 var gert ráð fyrir að Tyrkjaránið væri tekið til umfjöllunar og námsbókahöfundar hentu það á lofti. Samhengið varðaði varnarmál, stríð og frið, siglingar um heimshöfin, sjórán og samkeppni stórvelda. Einnig komu einstaklingar við sögu, ekki einungis Guðríður Símonardóttir heldur einnig trúskiptingurinn Anna Jasparsdóttir. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að Tyrkjaránið eigi traustan sess í sameiginlegri minningu Íslendinga svo að námsefnishöfundur eru tilbúnir að leggja lykkju á leið sína til að hafa það með þó að samhengi textans útheimti það ekki að öðru leyti. Umfjöllunin hefur verið breytileg, efnisatriði og helstu persónur mismunandi, samhengið af ólíku tagi og túlkanirnar sömuleiðis. Bæði hefur aukist að sjá atburðina í alþjóðlegu ljósi og að fjalla af innlifun um einstakar persónur.

Útgáfudagur: 29.12. 2016

Lesa grein