Undirbúningstími í leikskólum: Hagur barna

Höfundar: Sara M. Ólafsdóttir, Anna Magnea Hreinsdóttir, Margrét S. Björnsdóttir og Kristín Karlsdóttir.

Rannsóknin byggir á fræðikenningum um aðkomu barna að leikskólastarfi, þátttöku þeirra og réttindum til að hafa áhrif á daglegt starf. Slíkt krefst virks samráðs við börn og þekkingu og skilning á hvernig best sé að nálgast sjónarmið þeirra. Ein leið til þess að meta gæði leikskólastarfs er að rýna í líðan barna og þátttöku í leik og daglegu starfi þar sem skráningar geta nýst til að skipuleggja nám þeirra. Undirbúningstímar leikskólakennara eru liður í að halda uppi gæðum leikskólastarfs. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hver hagur barna er af undirbúningstíma leikskólakennara og hvaða tækifæri börn hafa til þátttöku. Tilgangurinn var að koma auga á rými fyrir börn til að hafa aukin áhrif á mótun leikskólastarfs. Helstu niðurstöður sýna að lengri tími leikskólakennara til undirbúnings leiddi til þess að þeir voru minna með börnum á deildinni sem gat komið niður á gæðum leikskólastarfsins.