Starfsumhverfi framhaldsskólakennara á fyrsta ári COVID-19 heimsfaraldurs

Höfundar: Guðrún Ragnarsdóttir, Súsanna Margrét Gestsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Elsa Eiríksdóttir.

Framhaldsskólastigið fór ekki varhluta af breyttu starfsumhverfi vegna COVID-19 faraldursins. Þegar samkomubann var sett á í mars 2020 fluttist öll staðkennsla yfir í fjarkennslu og hélst það fyrirkomulag fram eftir vorönn 2020. Um haustið tók við tímabil síbreytilegra samkomutakmarkana. Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á starfsumhverfi íslenskra framhaldsskólakennara við síbreytilegar aðstæður árið 2020. Sérstök áhersla er lög á starfsaðstæður framhaldsskólakennara, starfsskyldur, stuðning og álag en einnig samskipti kennara við nemendur, foreldra og samstarfsfólk. Niðurstöður sýna að kennarastarfið tók miklum breytingum á fyrsta ári heimsfaraldurs. Framhaldsskólakennarar fundu fyrir auknu álagi og þeim fannst starf sitt flóknara en áður.