3.10. 2017
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Sjálfbærnimenntun í aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla 2011: Samræmdar hugmyndir eða sundurlausar?
Höfundur þessarar greinar rannsakaði hvernig hugmyndir um sjálfbærni birtust í grunnþáttaköflum aðalnámskrár 2011 fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þótt sjálfbær þróun hafi vissulega verið þekkt hugtak meðal skólafólks og annarra í alllangan tíma var það ekki fyrr en í aðalnámskrá fyrir skólastigin þrjú árið 2011 sem hugtakið hlaut verðuga athygli sem mikilvægur þáttur í opinberri skólastefnu með því að sjálfbærni var gerð að einum af sex svokölluðum grunnþáttum menntunar. Textar námskránna voru lesnir og greindir með tilliti til hugtaksins sjálfbærni. Því næst var útbúinn greiningarlykill með þremur spurningum og ein þeirra með þremur undirspurningum. Sérhlutar námskrár hvers skólastigs, þar með talinn greinahluti aðalnámskrár grunnskóla, voru lesnir með þessar spurningar í huga. Niðurstöður sýna að hugtökin sjálfbær þróun og sjálfbærni koma sjaldan fyrir í sérhlutum námskránna, oftast þó í greinasviðshluta aðalnámskrár grunnskóla. Hugmyndirnar um sjálfbærni virðast vera útfærðar á ólíkan hátt eftir skólastigum en einnig á ólíkan hátt í mismunandi greinum grunnskóla. Oft virðist útfærslan vera fremur tilviljunarkennd og hugmyndirnar sundurlausar miðað við það sem kemur fram í kaflanum um grunnþætti. Markvissustu dæmin virðast vera í náttúrugreinum í grunnskóla þar sem sérstakur flokkur hæfniviðmiða er nefndur eftir lykilhugtakinu geta til aðgerða. Einnig eru hugmyndir um neytendafræðslu í anda grunnþáttanna víða í ólíkum námsgreinum grunnskólans.