Höfundur: Anna Magnea Hreinsdóttir.
Í þessari grein er fjallað um rannsókn sem hafði að markmiði að varpa ljósi á sameiginlega leikheima barna og leikskólakennara í fjórum leikskólum á Íslandi. Leikur hefur lengi verið álitinn helsta námsleið ungra barna og er talinn grundvallarréttur barna samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (1992). Með þeim breytingum sem gerðar voru árið 2023 á Aðalnámskrá leikskóla (Miðstöð menntunar og skólaþjónustu [MMS], e.d.) er lögð aukin áhersla á sjálfsprottinn leik barna og þátttöku kennara í leiknum. Í greininni er fjallað um hvernig leikur á að byggja á áhugasviði barna og á hvaða hátt kennarar geta tekið þátt í leik. Rannsóknarverkefnið Leikheimar var þróað í fjórum leikskólum í Reykjavík út frá sameiginlegum sögum og áhuga barna og kennara í samstarfi við fjóra leikskóla í Stokkhólmi. Fræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar byggir meðal annars á kenningum Vygotsky (1987, 2004) um samspil kennara og barna í leik og á hugmyndum Lindqvist (1998) um sameiginlega leikheima barna og kennara. Lögð er áhersla á hlutverka- og ímyndunarleik barna sem leið til náms og þroska. Rannsóknin var tilviksrannsókn þar sem fjögur leiktilvik frá fjórum leikskólum voru skoðuð. Gagnasöfnun fól í sér frásagnir kennara af leikstundum, rýnihópaviðtöl við stjórnendur og reglulegar skráningar rannsakanda. Niðurstöður sýna að kennarar eru tvístígandi í innkomu sinni í leik barna og að börn bjóða þeim sjaldan að taka þátt í leik. Þegar kennarar taka þátt í leik barnanna þarf að gæta þess að leikurinn sé á forsendum barna til að hann verði sjálfsprottinn og skapandi. Vísbendingar eru um að þátttaka kennara í leik barna geti breytt samskiptum, eflt leik barna og aukið gleði og vellíðan. Jafnframt eru dregnar ályktanir um hvernig kennarar og leikskólastjórar geta stutt við leikmenningu í leikskólum.
Útgáfudagur: 15.11.2024