Höfundar: Sara M. Ólafsdóttir og Svanborg R. Jónsdóttir.
Markmiðið með því verkefni sem hér er sagt frá var að nýta aðferðir nýsköpunarmenntar til þess að laða fram hugmyndir leikskólabarna um endurskipulagningu og hönnun leikskólalóðar. Þátttakendur voru 4–5 ára börn í leikskóla sem staðsettur er á landsbyggðinni. Börnin notuðu fjölbreyttar aðferðir til þess að þróa hugmyndir sínar og gera þær sýnilegar og fengu stuðning við að koma þeim á framfæri til hönnunaraðila. Þau tóku ljósmyndir, teiknuðu myndir og umræða þeirra um myndirnar voru skráðar. Einnig sóttu þau fund skipulags- og byggingafulltrúa og kynntu hugmyndir sínar og hann sá til þess að þær væru notaðar við endurhönnun lóðarinnar. Börnin sýndu að þau voru fær um að koma með nytsamlegar hugmyndir og voru ánægð með þær og stolt af þeim. Þau fundu því fyrir áhrifamætti og valdefldust við þátttökuna. Þegar lagðar voru saman hugmyndir barnanna, starfsfólks leikskólans og hönnunaraðila var niðurstaðan að þeirra mati vel heppnuð leikskólalóð þar sem börn og starfsfólk una sér vel í leik og starfi. Þetta verkefni er dæmi um hvernig hægt er að vinna með aðferðir nýsköpunarmenntar í leikskóla til þess að koma hugmyndum barna á framfæri, ýta undir sköpunarfærni þeirra og efla trú þeirra á að þau geti haft áhrif á umhverfi sitt.
Útgáfudagur: 19.09.2016