Höfundar: Sigrún Harðardóttir og Guðrún Kristinsdóttir.
Hér er greint frá niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem ætlað var að varpa ljósi á hvað nemendur með námserfiðleika telja að hafi haft áhrif á námsárangur þeirra. Byggt er á vistfræðikenningu Bronfenbrenners um gagnvirk áhrif foreldra, skóla og samfélags á þroska og aðlögun barna, og á öðrum rannsóknum sem sýna hvað hefur áhrif á líðan nemenda með námserfiðleika og námsframvindu þeirra. Tekin voru viðtöl við tíu ungmenni sem áttu við námserfiðleika að stríða alla skólagönguna en náðu þrátt fyrir það að ljúka námi í framhaldsskóla. Sjónarmið nemenda sjálfra eru nú í auknum mæli talin mikilvæg og viðtalsrannsóknir undanfarinna ára sýna að mörg börn og ungmenni tjá sig vel um eigin reynslu. Í viðtölunum komu fram þrjú meginatriði: a) Erfiðleikar við að fá námsvandann viðurkenndan, b) tilhneiging til að aðgreina nemendur og flokka, og c) hvatning og stuðningur foreldra og skóla sem stuðlaði að seiglu og velgengni í námi. Seigla sem nemendur komu sér upp með stuðningi í nærumhverfinu virtist ráða mestu um aukna trú ungmennanna á eigin getu.
Útgáfudagur: 19.09.2016