Menntakvika 2016

Birt 31.12.2016

 

Menntavísindasvið Háskóla Íslands Menntun, mannvit og margbreytileiki. Greinar frá Menntakviku er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Ritstjórn skipuðu Hafdís Ingvarsdóttir (ritstjóri), Meyvant Þórólfsson og Ragnhildur Bjarnadóttir. Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir annaðist verkefnisstjórn með útgáfunni fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Greinarnar

Í sérritinu eru níu ritrýndar greinar  og spanna þær vítt svið innan menntavísinda eins og titill ber með sér. Auk almenns handritalesturs, eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á viðkomandi sviði. Að minnsta kosti annar sérfræðingurinn starfar ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina. Ritstýrðar greinar eru rýndar af ritstjórn og einum sérfræðingi.

Ástríður Stefánsdóttir
Hvers vegna beina læknar í auknum mæli sjónum að feitu fólki? 
Í þessari grein Ástríðar Stefánsdóttur er fjallað um þá spurningu hvers vegna offita er í síauknum mæli viðfang heilbrigðisstétta og hvort sú þróun sé til hagsbóta fyrir feitt fólk. Þótt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi lýst því yfir að offita sé meðal alvarlegustu heilbrigðisvandamála sem mannkynið glímir nú við er ekki augljóst að nálgun læknisfræðinnar verði til þess að auka lífsgæði hjá feitu fólki. Faraldursfræðilegar rannsóknir og langtímarannsóknir á árangri meðferðar gegn offitu sýna að hún skilar litlum árangri. Í þessari grein lýsir höfundur hinni hefðbundnu raunvísindalegu orðræðu um offitu en varpar jafnframt ljósi á sjúkdómsvæðingu (e. medicalization) feits fólks.

Gunnar E. Finnbogason
Lyklar framtíðar: Lykilhæfni í menntastefnu Evrópu og Íslands 
Í grein Gunnars E. Finnbogasonar,  eru teknar til umfjöllunar og greiningar hugmyndir og umræða um þekkingu sem orðið hefur til síðustu misserin í Evrópu, sérstaklega innan Evrópusambandsins (ESB) og einnig innan Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD), um lykilhæfni (e. key competence) í menntamálum. Við þessa greiningu er sérstaklega skoðuð afstaða þessara aðila til lykilhæfnihugtaksins. Einkum er augum beint að tveimur skýrslum og þær greindar, þ.e. Europaparlamentets och rådets rekommentation av den 18. december 2006 om nyckelkompetenser för livslångt lärande [Meðmæli Evrópuþingsins og ráðsins frá 18. desember 2006 um lykilhæfni fyrir símenntun] (ESB, 2006) og The definition and selection of key competencies (DeSoCo, 2005). Við greininguna er kastljósinu beint að markmiðum menntunar, inntaki og hæfniviðmiðum.

Anna Katarzyna Wozniczka og Hanna Ragnarsdóttir
Lög, stefna og úrræði í málefnum háskólanema af erlendum uppruna í þremur háskólum á Íslandi 
Anna Katarzyna Wozniczka og Hanna Ragnarsdóttir fjalla í grein sinni um fjölgun innflytjenda í háskólum á Íslandi og þörfina á viðbrögðum háskólayfirvalda, kennara og háskólasamfélagsins. Íslenskar og erlendar rannsóknir sýna að menntastofnanir, einkum á háskólastigi, gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja félagslegt jafnrétti, með stefnu sinni og meðal annars með því að beita kennsluaðferðum sem henta fjölbreyttum nemendahópum og bjóða þeim stuðning og ráðgjöf. Markmið greinarinnar er að að fjalla um niðurstöður skjalagreiningar (e. document analysis) á reglugerðum og stefnu í málefnum háskólanema af erlendum uppruna á Íslandi og úrræðum sem standa þeim til boða í íslenskum háskólum.

Hlynur Helgason
Aðferð heimpekilegs innsæis: Mikilvægi hugmynda Henris Bergsons fyrir umræðu um þróun menntunar 
Í grein Hlyns Helgasonar felst skoðun á mikilvægi hugtaksins „heimspekilegt innsæi“, eins og það er sett fram í skrifum franska heimspekingsins Henris Bergsons í riti hans La Pensée et le Mouvant (Hugsunin og það sem hrærist) og víðar. Sérstök áhersla er lögð á að skoða hugtakið út frá hugmyndum og umræðu um þróun menntunar á Íslandi, bæði nú og á öldinni sem leið. Hugmyndir Bergsons hafa nýst á undanliðnum áratugum í viðleitni til að leggja grunn að jákvæðri og uppbyggilegri afstöðu til pólítískt hlaðinna álitamála samtíðarinnar. Upplegg Hlyns í greininni er að endurmat á kenningum Bergsons geti verið gagnlegt til að skilja og skilgreina mikilvægi innsæis í tengslum við hugmyndir um lýðræðisþroska og sjálfbærni í heimi sem einkennist í síauknum mæli af neysluhyggju og flækjustigi tæknivæddra samskipta

Jón Ásgeir Kalmannsson
Upphaf og ástríða heimspekinnar: Um mikilvægi undrunar í hugsun og siðferðisskilningi 
Grein Jóns Ásgeirs Kalmannssonar fjallar um að þó undrunin leiki stórt hlutverk í hugmyndasögunni hefur hún ekki fengið þá athygli á síðari tímum sem hún verðskuldar. Þannig vill það til dæmis gleymast að heimspekingar fornaldar, á borð við Sókrates og Platon, litu á undrunina sem upphaf og ástríðu heimspekinnar. Í greininni er fjallað um þessar sígildu hugmyndir um tengsl undrunar og heimspeki eða viskuástar. Rætt er um tengsl undrunar við það sem kallað hefur verið sókratísk írónía, sem felur í senn í sér viðurkenningu á tilvist einhvers sem hefur djúpa þýðingu og viðurkenningu á eigin þekkingarskorti gagnvart því. Þá er einnig vikið að því hvernig líta megi á undrunina sem sameiginlegan grundvöll heimspeki, skáldskapar og trúar. Í síðari hluta greinarinnar er fjallað um mögulegar skýringar á því hvers vegna sumir telja að undrun hafi ekkert gildi í sjálfu sér.

Kristín Bjarnadóttir
Landspróf miðskóla 1946–1976: Áhrif nýju stærðfræðinnar 
Kristín Bjarnadóttir fjallar um Landspróf miðskóla sem var við lýði á árunum 1946 til 1976 og þróun stærðfræði á því tímabili. Prófað var í átta námsgreinum þar sem íslenska vó tvöfalt. Landsprófið var upphaflega grundvallað á reglugerð nr. 3/1937 um námsefni til prófs upp úr öðrum bekk Menntaskólans í Reykjavík. Landsprófið í stærðfræði hélst að miklu leyti óbreytt á árunum 1947–1965. Prófað var í lesnum dæmum sem nemendur höfðu lært áður og í ólesnum dæmum. Frá árinu 1966 breyttist prófgerðin: lesin dæmi voru felld niður, prófið var stytt og tekið var að prófa úr svokallaðri nýrri stærðfræði. Þar var lögð aukin áhersla á tölur og eiginleika þeirra en einnig á mengi ásamt tilheyrandi rithætti og aðgerðum samkvæmt Drögum að námsskrá í landsprófsdeildum miðskóla frá árinu 1968. Markmiðið með innleiðingu nýju stærðfræðinnar var að auka skilning nemenda í stærðfræði.

Helga Þórey Júlíudóttir, Kristín Björnsdóttir og Berglind Rós Magnúsdóttir
Á jaðri jaðarsins í framhaldsskóla fyrir alla Starfsbraut – sérnám innan Tækniskólans 
Helga Þórey Júlíudóttir, Kristín Björnsdóttir og Berglind Rós Magnúsdóttir fjalla hér um sérnám starfsbrautar innan Tækniskólans. Í greininni er fjallað um hvernig brautin er ætluð fötluðum nemendum sem eiga ekki kost á að stunda nám á starfsbrautum framhaldsskólanna vegna námsvanda og krefjandi hegðunar. Í greininni er sjónum beint að tilurð, námskrá og stofnanalegu skipulagi námsins í samhengi við annað nám fyrir nemendur með þroskahömlun og hins vegar reynslu stefnumótunar- og fagaðila af starfi sínu við það. Rannsóknin er eigindleg tilviksrannsókn þar sem nýttar eru kenningar Goffman um frávik og stimplun, Foucault um þekkingu og völd og svo þrepalíkan Deno um stigvaxandi aðgreiningu innan menntastofnana

Þorbjörg Guðjónsdóttir og Kolbrún Þ. Pálsdóttir
Mín skoðun skiptir máli: Þátttaka nemenda í skólaráði grunnskóla 
Grein Þorbjargar Guðjónsdóttur og Kolbrúnar Þ. Pálsdóttur, fjallar um reynsluna af starfsemi skólaráða í grunnskólum og þátttöku nemenda þar. Í grunnskólalögum 2008 var sett inn ákvæði þess efnis að nemendur skyldu eiga tvo fulltrúa í skólaráði. Markmið rannsóknarinnar sem hér er greint frá var að afla þekkingar á reynslu og viðhorfum skólastjórnenda og nemenda til skólaráðs og taka saman hagnýtar upplýsingar sem gætu nýst til að tryggja þátttöku nemenda í skólaráði. Kenningar Johns Dewey um lýðræði og reynslu og ekki síður hugmyndir hans um lýðræðislega samvinnu mynduðu ramma um rannsóknina. Vettvangsathugun fór fram í fjórum grunnskólum og opin viðtöl voru tekin við fjóra skólastjóra og sex nemendur sem áttu sæti í skólaráðum veturinn 2014–2015. Niðurstöður leiddu í ljós að skólastjórar höfðu jákvæða reynslu af starfi slíkra ráða en skiptar skoðanir voru á þátttöku nemenda.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir
Hin hugsandi sjálfsvera: Formlegt og óformlegt nám skoðað í ljósi heimspeki Páls Skúlasonar 
Í þessari grein skoðar Kolbrún Þ. Pálsdóttir hvernig merkingar- og tilgangshyggja Páls Skúlasonar heimspekings varpar ljósi á tengsl formlegs og óformlegs náms. Greinin nefnist Hin hugsandi sjálfsvera: Formlegt og óformlegt nám skoðað í ljósi heimspeki Páls Skúlasonar. Heimspeki Páls byggist einkum á tveimur áhrifamiklum straumum, annars vegar tilvistarspeki og hins vegar kerfishyggju, sem hafa mótað hugmyndir okkar um veruleikann og okkur sjálf. Tilvistarspekin útskýrir hvers vegna hvert okkar verður að finna sinn tilgang og móta eigin lífsstefnu; kerfishyggjan varpar ljósi á merkingarvefinn sem við göngum inn í og tökum þátt í að spinna. Slíkur skilningur á manneðlinu skýrir hvers vegna fjölbreytt námsumhverfi, bæði formlegt og óformlegt, skiptir máli við að styðja þroska og nám.