Lýðræði í frjálsum leik barna

Höfundur: Gunnlaugur Sigurðsson.

Í þessari grein er fjallað um fræðilegan grunn að þróunarverkefni sem unnið var að í leikskólanum Krakkaborg. Markmið verkefnisins var að efla sjálfsprottinn, öðru nafni frjálsan leik barnanna sem markvissa náms- og kennsluaðferð til lýðræðis, í skilningi Aðalnámskrár leikskóla, 2011. Þróunarverkefnið var unnið í tveim áföngum. Í þeim fyrri var markmiðið að greinarhöfundur, skólastjóri og aðstoðarskólastjóri ásamt nokkrum starfsmönnum öðrum legðu fræðilegan grunn að þróunarverkefninu. Það er efni þessarar greinar. Í þeim seinni byggðu starfsmenn á þeim grunni við athuganir sínar og tilraunir til að þróa frjálsan leik barnanna til þess vettvangs og leiðar í menntun barnanna til lýðræðis sem Aðalnámskrá leikskóla 2011 kveður á um. Það verður efni í aðra grein. Í fyrri áfanganum reyndum við að ná markmiði okkar með því að glöggva okkur á lýðræðisákvæðum námskrárinnar, skilningi okkar sjálfra á lýðræði, hvað við teldum að lýðræði þýddi, hvernig þær hugmyndir hefðu mótast og hvernig þær féllu að því markmiði að framfylgja í frjálsum leik barnanna lýðræðisákvæði Aðalnámskrár leikskóla, 2011. Við fylgdum því eftir með því að skoða og endurskoða niðurstöður okkar og álitamál í ljósi þess sem hugsuðir um lýðræði hafa um það skrifað, sérstaklega þeir sem hafa gert lýðræði í skólastarfi að viðfangsefni sínu. Meginniðurstaða okkar var sú að í frjálsum leik barna yrði lýðræði ekki kennt sem regluverk heldur skapaði hann börnum einstakt tækifæri til að öðlast sérstæða ef ekki einstæða reynslu af þeim sammannlegu gildum sem auðga einstaklingsbundna og félagslega tilveru manna; það sem John Dewey boðaði sem sjálft fyrirheit lýðræðisins.

Útgáfudagur: 29.12. 2016

Lesa grein