Kynjajafnrétti og kennaramenntun: Ákall kennaranema um aukna fræðslu

Höfundar: Guðný S. Guðbjörnsdóttir og Þórdís Þórðardóttir.
Kynjajafnrétti og kennaramenntun: Ákall kennaranema um aukna fræðslu

Í þessari grein er sagt frá rannsókn á þekkingu, áhuga og viðhorfum kennaranema á jafnréttismálum með áherslu á kynjajafnrétti. Niðurstöður benda til þess að fáir þeirra hafi kynnst kynjafræði áður en þeir hófu kennaranámið og mikill meirihluti þeirra er ósammála því að fræðsla um kynjajafnrétti hafi verið hluti af þeirra kennaranámi. Þótt þekking nemanna á hugtökunum jafnrétti, karlmennsku, kynbundnum staðalmyndum og femínisma mælist mikil segist aðeins helmingur þeirra þekkja hugtakið kyngervi (e. gender) vel og um 15‒20% hugtakið kynjakerfi (e. gender system). Kennaranemarnir hafa mikinn áhuga á að breyta staðalmyndum kynjanna en margir hafa takmarkaða þekkingu á nauðsynlegum hugtökum og hefðbundin eðlishyggjuviðhorf sem þykja afturhaldssöm eru algeng. Hins vegar kemur í ljós að 87% kennaranemanna telja að auka þurfi fræðslu um kynjajafnrétti í náminu og yfir 70% þeirra hafa mikinn áhuga á að taka sérstakt námskeið um kynjajafnrétti. Nemarnir hafa mestan áhuga á að læra meira um kynbundið ofbeldi eða einelti, kynbundnar staðalmyndir, kyn og margbreytileika, samskiptamiðla og stöðu kynjanna. Niðurstöður rannsóknarinnar eru skýrt ákall um breytingar. Hér eru lagðar fram tillögur um áherslur og leiðir í þeim efnum og vonast er til að þær verði Menntavísindasviði hvatning til að efla kynjajafnréttisfræðslu í kennaranáminu.

Útgáfudagur: 29.12. 2016