Höfundar: Kristín Þóra Möller og Hermína Gunnþórsdóttir
Hér er sagt frá rannsókn sem fór fram í tveimur grunnskólum vorið 2014. Þar könnuðu höfundar skipulag frímínútna í skólunum tveimur, samspil frímínútna og skólabrags og hvernig agastefna hvors skóla um sig tengdist þessu skipulagi.
Um var að ræða viðtalsrannsókn þar sem viðmælendur voru fjórir, tveir í hvorum skóla. Einnig fóru fram vettvangsathuganir í í frímínútum við báða skólana og ýmis gögn um skólana greind, meðal annars niðurstöður þeirra í könnunum á vegum Skólapúlsins.
Niðurstöður gefa til kynna að viðmælendur virðast ósáttir við það hversu víðtækar starfslýsingar þeirra eru og að lítil sem engin formleg starfsþjálfun reynist vera í boði. Markviss agastefna virðist nýtast starfsfólki vel sem verkfæri, umfram almennar skólareglur, og allt bendir til þess að flestum nemendum líði vel í frímínútum. Þó gætir úrræðaleysis þegar kemur að agavandamálum í frímínútum skólanna tveggja, að mati viðmælenda. Með skipulegum leikjum og valkvæmum frímínútum væri að þeirra mati hægt að koma í veg fyrir aðgerðaleysi, agavandamál og einelti.
Útgáfudagur: 29.11.2017