Fósturbarn eins og kría á steini: Reynsla barna af fóstri og skólagöngu

Höfundar: Áslaug B. Guttormsdóttir og Guðrún Kristinsdóttir.

Í þessari grein er sagt frá rannsókn á aðstæðum svonefndra fósturbarna og skólagöngu þeirra, þ.e. barna sem teljast jafnan ekki geta dvalið hjá foreldrum vegna erfiðra aðstæðna að mati barnaverndaryfirvalda. Til fósturráðstöfunar er gripið þegar talið er að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin vegna framferðis foreldra eða vegna hegðunar barnsins. Rannsóknir benda meðal annars til að óstöðugleiki í fóstri geti haft neikvæð áhrif á námsgengi. Markmið þessarar rannsóknar var að athuga reynslu viðmælenda af fósturdvöl og skólagöngu, m.a. hvort þeir teldu að haft hefði verið samráð við þá um ákvarðanir. Um var að ræða viðtalsathugun með þátttöku- og barnmiðuðu sniði, þar sem reynt var að veita viðmælendum talsvert sjálfdæmi um tilhögun viðtala. Rætt var við fjóra unglinga á aldrinum 14 til 16 ára. Sumir höfðu dvalið á víxl í fóstri eða hjá foreldrum. Í niðurstöðum vöktu áföll og tíð skipti um skóla einna mesta athygli og það beindi meðal annars athygli að óstöðugleika af völdum fóstursins. Hvert barn hafði sótt 4–5 skóla. Á þeim tíma þegar rannsóknin var gerð höfðu börnin alls skipt um skóla 26 sinnum og lent í ýmsum vanda, t.d. einelti og óréttmætum ásökunum. Reynsla fósturbarnanna af skólagöngu var með ýmsu móti. Samvinna reyndist vera nokkur milli skóla og barnaverndarnefnda en samráð við börnin lítið og vinnuaðferðir virtust ekki efla þau sem skyldi. Erfitt reyndist að finna börn til að ræða við og strandaði þar mest á milliliðum sem þurfa að leyfa slíkt. Rannsóknin náði til fárra og var markmiðið því ekki að alhæfa um niðurstöður. Í ljósi þeirra má þó álykta að barnaverndarnefndir og skólar þurfi, a.m.k. stundum, að skilgreina betur frumkvæði, tryggja fósturbörnum meira öryggi og treysta betur námsgengi þeirra. Þess er vænst að niðurstöðurnar geti nýst til að efla menntun fósturbarna.

Útgáfudagur: 26.10. 2017

Lesa grein