Forysta á krísutímum: Mygla í húsnæði leikskóla

Mygla í skólahúsnæði á Íslandi hefur haft töluverð áhrif á starfsemi skóla á síðastliðnum árum. Áhrifin ná til barna, foreldra, starfsfólks og innra starfs skólanna. Í þessari grein er fjallað um rannsókn sem hafði að markmiði að kanna hvernig leikskólastjórar takast á við afleiðingar þeirrar krísu sem myndast þegar mygla greinist í húsnæði leikskóla, hvaða áhrif það hefur á innra starf og hvaða stuðningur er til staðar. Tilgangurinn var að greina hvaða eiginleikar og áherslur nýtast best til að takast á við krísu og óvissu. Niðurstöður sýndu að stjórnendurnir sem tóku þátt í rannsókninni tókust á við afleiðingar myglu í húsnæði leikskólanna með hag heildarinnar í huga og sinntu mörgum verkefnum sem að hluta til féllu hvorki undir starfslýsingu þeirra né hlutverk sem leikskólastjóra. Þeir töldu mikilvægt að sjá tækifæri í krísunni, að setja sér markmið og hafa framtíðarsýn í huga. Að mati viðmælenda var þetta streituvaldandi tímabil fyrir starfsfólk, foreldra og ekki síst börnin sem dvelja í leikskólunum. Gildi rannsóknarinnar felst í aukinni þekkingu á stjórnun og forystu á krísutímum til að takast sem best á við þá óvissu og þær breytingar sem krísutímum fylgja.

Útgáfudagur: 14.12.2023

Lesa grein