Höfundar: Hjördís Sigursteinsdóttir, Eva Halapi og Kjartan Ólafsson.
Í þessari grein er skýrt frá niðurstöðum rannsóknar á netnotkun ungmenna í 9. og 10. bekk grunnskóla á Íslandi og því hvort foreldrar setji þeim mörk varðandi hana. Byggt er á gögnum úr evrópsku rannsóknarverkefni sem hafði það að markmiði að meta algengi og áhrifaþætti netávana meðal evrópskra ungmenna. Blönduðum rannsóknaraðferðum var beitt við gagnaöflun, spurningalistakönnun og hálfstöðluðum viðtölum. Meginniðurstöður eru þær að allir þátttakendur í 9. og 10. bekk grunnskóla nota Netið og tveir af hverjum þremur nota það daglega eða nánast daglega. Strákar verja meiri tíma á Netinu en stelpur eða að meðaltali um tvær og hálfa klukkustund á dag á móti tveimur klukkustundum hjá stelpum. Um 1% þátttakenda í rannsókninni höfðu einkenni netávana og um 7% til viðbótar töldust vera í áhættuhópi vegna netávana. Nærri 60% foreldra settu ungmennunum sjaldan eða aldrei mörk hversu lengi þau máttu vera á Netinu. Ungmenni töldu sig almennt hafa stjórn á netnotkun sinni en mörg hver voru þó jafnframt á þeirri skoðun að netnotkun þeirra væri orðin meiri en eðlilegt gæti talist.
Útgáfudagur: 22.12.2014