„Ég er enn að hugsa um að byrja aftur“: Ástæður brotthvarfs meðal háskólanema í Íslensku sem öðru máli

Brynja Þorgeirsdóttir

Markmið þessarar rannsóknar var að leiða í ljós helstu ástæður mikils brotthvarfs meðal BA nemenda í Íslensku sem öðru máli, í þeim tilgangi að leita leiða til að sporna gegn því. Aðeins um 16% nemendanna útskrifast með BA gráðu í samanburði við 53% grunnnema í Háskóla Íslands sem heild. Rannsóknir á liðnum áratugum hafa aukið skilning á því hvernig ýmsar félagslegar, menningarlegar, efnahagslegar og stofnanalægar breytur, í samspili við einstaklingsbundna þætti, hafa áhrif á ákvörðun nemenda um að hætta námi fyrir útskrift. Meginrannsóknarspurningin í þessari rannsókn var hvernig nemendur skýra eigið brotthvarf, ásamt því hvert markmið þeirra væri með náminu og hvað einkennir samsetningu hópsins. Niðurstöður sýna að nemendahópurinn er afar ólíkur öðrum grunnnemum í íslenskum háskólum hvað varðar fjölbreyttan uppruna, atvinnuþátttöku og aldur. Mikill meirihluti, eða 82%, ætlar sér að útskrifast af námsbrautinni en mætir ýmsum hindrunum. Niðurstöðurnar gefa til kynna mikilvæg tækifæri til úrbóta.

Skoða grein (pdf)

Skoða grein inn á OJS