Ákall og áskoranir: Vegsemd og virðing í skólastarfi

Höfundur: Sigrún Aðalbjarnardóttir.

Í þessari grein er athyglinni beint að kennurum í samtíð og framtíð og faglegu hlutverki þeirra. Þrennt er dregið fram hvað það snertir. Í fyrsta lagi mikilvægi þess að rækta borgaravitund ungs fólks á öllum skólastigum frá leikskóla til háskóla. Þátttaka fólks í ákvörðunum um samfélagsmál er ein meginstoða lýðræðis og því mikilvægt á hverjum tíma að ala upp kynslóð sem hefur áhuga á og færni til að láta sig mál samfélagsins varða. Í öðru lagi er því lýst hve áríðandi er að styðja við starfsþroska kennara og skólaþróun á öllum skólastigum með því að hvetja til ígrundunar á starfinu og skapa námssamfélag. Með því styrkist menntunarsýn kennara og skólastjórnenda; markmið og gildi verða skýrari og starfshættir markvissari við að efla þroska og velferð nemenda. Og í þriðja lagi er rætt hve brýnt er að efla sjálfsvirðingu kennara og efla virðingu samfélagsins fyrir þeim sem fagstétt. Áherslurnar vefast saman og fela í sér ýmis tækifæri og áskoranir í uppeldi og menntun. Kallað er eftir samvinnu og samábyrgð stjórnvalda, kennaramenntunarstofnana, skóla og rannsakenda við að treysta kennaranám og skólaþróun og um leið virðingu fyrir kennurum sem fagstétt.

Útgáfudagur: 31.12.2015

Lesa grein