Höfundar: Leifur S. Garðarsson, Bergljót Gyða Guðmundsdóttir og Margrét Sigmarsdóttir.
Mikilvægt er að skólar búi yfir árangursríkum og skipulögðum aðferðum til þess að mæta þörfum allra nemenda og móta jákvætt andrúmsloft í skólasamfélaginu. Starfsfólk þarf meðal annars að hafa yfir að ráða áhrifaríkum leiðum til að efla jákvæða hegðun nemenda og koma í veg fyrir óæskilega hegðun. SMT-skólafærni er dæmi um slíka heildræna og þrepaskipta aðferð en hún hefur verið notuð hérlendis í yfir 20 ár. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða stöðu innleiðingar SMT-skólafærni í einu sveitarfélagi og hvernig henni er viðhaldið 20 árum síðar. Niðurstöður sýndu að grunnskólarnir hafa haldið vel utan um SMT-skólafærni í kjölfar innleiðingar, að mati þátttakenda. Mikil þekking hafi skapast innan skólanna og almennt er litið á SMT-skólafærni sem ákjósanlegan kost til þess að mæta þörfum allra nemenda. Niðurstöður eru hins vegar einnig ákall á aðstoð því skólastjórnendur töldu að stuðningi við aðferð, viðhaldi og framtíðarsýn SMT-skólafærni væri ábótavant í sveitarfélaginu.
Útgáfudagur: 31. 12. 2022