Höfundur: Svanborg R. Jónsdóttir, Meyvant Þórólfsson, Jóhanna Karlsdóttir og Gunnar E. Finnbogason.
Haustið 2012 hófu Nýsköpunarmiðstöð Íslands og tvö ráðuneyti ásamt fleiri samstarfsaðilum sameiginlegt átak um að efla þátt nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar (NFM) í framhaldsskólum. Samstarfið hófst með könnun á núverandi stöðu námssviðsins. Vefkönnun var lögð fyrir stjórnendur framhaldsskóla, þar sem meðal annars var spurt um stöðu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar í hverjum skóla fyrir sig, afstöðu stjórnenda til námssviðsins og þáttar þess í kennaramenntun og hvernig þeir myndu skilgreina það. Svanborg R. Jónsdóttir annaðist greiningu gagna í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Í framhaldi af því fengu höfundar þessarar greinar og Rannsóknarstofa um námskrá, námsmat og námsskipulag (NNN) leyfi til að greina niðurstöður opinna spurninga nánar með hliðsjón af flokkunarkerfi Michael Schiro (2008) í námskrárfræðum. Niðurstöðurnar gefa til kynna að stjórnendur sjái margvísleg tækifæri felast í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Nánar voru rannsökuð tvö tilvik um nýsköpunar- og frum-kvöðlamennt í skólastarfi og leiddu þau í ljós sterka tengingu við samfélag og jafnframt áherslu á skapandi og sjálfstæða hugsun. Útgáfudagur: 31.12.2014