Höfundur: Eyrún María Rúnarsdóttir.
Tengsl finnast á milli mikillar skjá- og samfélagsmiðlanotkunar unglinga og aukinna kvíða- og þunglyndiseinkenna. Jafnframt sýna rannsóknir að samfélagsmiðlar skapa unglingum tækifæri til að stofna til samskipta, til sjálfsmyndarþróunar og auka tilfinningu þeirra fyrir að tilheyra. Samkvæmt tilgátu um félagslega uppbót gætu ungmenni með slök tengsl við jafnaldra í raunheimi bætt sér þau upp með tengslum á netinu. Markmið rannsóknarinnar er að kanna líðan unglinga eftir fjölda vina í raunheimi og netheimi. Til rannsóknar eru tengsl vinafjölda unglinga og líðanar eftir því hvort uppruni unglinga er íslenskur eða ekki og eftir einkennum félagskvíða. Gögnum var safnað með spurningalistakönnun sem lögð var fyrir í 8.–10. bekk níu grunnskóla. Alls svöruðu 806 unglingar listanum og var svarhlutfall 82%. Niðurstöður sýndu marktæka en veika fylgni sálrænnar líðanar og fjölda vina á netinu; því fleiri netvini sem ungmenni áttu þeim mun verr leið þeim. Meiri vanlíðan fannst meðal unglinga með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og þeir áttu fleiri vini sem þeir hittu aðeins á netinu samanborið við ungmenni sem áttu foreldra er fæddir voru á Íslandi. Fjöldi netvina hafði ekki áhrif á tengsl félagskvíða við sálræna líðan né fannst marktækur munur á sálrænni líðan eftir uppruna hvort sem netvinir voru fleiri eða færri. Tilgátan um félagslega uppbót hlaut því ekki stuðning í þessari rannsókn. Vísbendingar um að fjöldi netvina sé ekki tengdur vanlíðan í sama mæli meðal ungmenna sem áttu foreldra sem fæddir voru utan Íslands samanborið við ungmenni sem áttu foreldra fædda á Íslandi kalla á frekari rannsóknir. Mikilvægt er að forráðamenn og uppeldisstéttir leiðbeini ungu fólki um samskipti á netinu en hafi jafnframt í huga að dýrmæt vinatengsl geta skapast á þeim vettvangi.
Útgáfudagur: 24.10.2024