Yndislestur á uppleið? Breytingar á lestrarvenjum drengja og stúlkna

5.10. 2017
Brynhildur Þórarinsdóttir, Andrea Hjálmarsdóttir og Þór Bjarnason
Yndislestur á uppleið? Breytingar á lestrarvenjum drengja og stúlkna

Lestrarvenjur kynjanna eru bornar saman og skoðaðar í evrópsku samhengi í greininni Yndislestur á uppleið? Breytingar á lestrarvenjum drengja og stúlkna. Meginnniðurstöðurnar eru þær að 10. bekkingum sem hafna bókum fer hlutfallslega fækkandi. Dregið hefur saman með stúlkum og drengjum sem aldrei lesa bækur utan skóla, drengir eru ennþá í meirihluta bóklausra nemenda, en kynjamunurinn hefur minnkað. Umræðan um slakan lesskilning íslenskra unglinga, einkum drengja, hefur verið hávær undanfarin ár í kjölfar PISA prófanna í lesskilningi. PISA prófin sýna að lesskilningi íslenskra 15-16 ára unglinga hefur hrakað verulega frá árinu 2000, drengir eru mun fjölmennari en stúlkur í hópi slökustu nemendanna og athyglin hefur beinst að því hlutfalli drengja sem „les sér ekki til gagns“. Rannsóknir á bóklestri hafa að sama skapi sýnt minnkandi lestraráhuga barna og unglinga, og að drengir lesa að jafnaði minna en stúlkur. Markmiðið með rannsókninni sem lýst er í greininni var að kanna lestraráhuga 15-16 ára nemenda á Íslandi, og bera íslenska unglinga saman við unglinga annars staðar í Evrópu. Gögn eru fengin úr evrópsku ESPAD rannsókninni sem lögð er fyrir 15-16 ára unglinga í álfunni á fjögurra ára fresti. ESPAD 2015 gefur vísbendingar um að botninum sé náð hvað varðar bókleysi íslenskra unglinga. Íslensku drengirnir standa hlutfallslega betur en stúlkurnar í hinum evrópska samanburði, bæði í flokki bóklausra og bókhneigðra. Þessar niðurstöður sýna vel hversu einhliða mynd orðræðan um lestrarvanda drengja gefur af lestri unglinga.