Þróun viðhorfa grunnskólanema til lýðræðis í skólastarfi yfir fimm ára tímabil

Höfundar: Gunnar E. Finnbogason, Kristján K. Stefánsson og Annelise Larsen-Kaasgaard

Höfundar þessarar greinar beindu sjónum að hugmyndum nemenda í eldri árgöngum skyldunáms um lýðræði og lýðræðisþátttöku þeirra. Eitt meginmarkmið skólastarfs, samkvæmt núgildandi lögum og aðalnámskrá hérlendis, er að búa nemendur undir þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Samkvæmt þessu á grunnskólinn að vera sá vettvangur sem veitir nemendum svigrúm og tækifæri til að öðlast reynslu af lýðræðislegu starfi og vera þátttakendur í því. Höfundar könnuðu mögulegar breytingar á viðhorfum nemenda í þessum efnum yfir fimm ára tímabil, 2010 til 2015, þ.e. áður en núgildandi aðalnámskrá tók gildi og eftir að hún tók gildi. Niðurstöður gefa til kynna að viðhorf nemenda til lýðræðis í grunnskólum á Íslandi og lýðræðisþátttaka virðist hafa tekið mjög litlum breytingum á framangreindu tímabili. Engar breytingar var að finna á því sem kallað hefur verið frjálslynd lýðræðissjónarmið, svo sem tjáningarfrelsi og samkeppni í skólastofunni. Aftur á móti mátti greina smávægilega jákvæða breytingu á viðhorfum til þess sem kallað hefur verið samstarfslýðræði, þ.e. til þátttöku og samvinnu. Mikilvægi lýðræðisþátttöku að mati nemendanna virtist dala lítillega yfir þetta fimm ára tímabil. Niðurstöðurnar voru bornar saman við danska rannsókn frá árinu 2001 sem þessi rannsókn tók mið af. Enginn afgerandi munur fannst á viðhorfum dönsku og íslensku ungmennanna. Þó virtust frjálslynd lýðræðissjónarmið vera traustari hjá dönsku ungmennunum.

Útgáfudagur: 3.10. 2017

Lesa grein