Höfundar: Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Hjördís Sigursteinsdóttir
Tilgangur greinarinnar er að varpa ljósi á veikindi, veikindafjarvistir og læknisheimsóknir starfsfólks grunnskóla/tónlistarskóla og leikskóla í samanburði við annað starfsfólk sveitarfélaga í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Spurt er: „Breyttist fjöldi veikindadaga og læknisheimsókna vegna vinnutengdra þátta meðal starfsfólks skólanna og annars starfsfólks sveitarfélaga á Íslandi í kjölfar bankahrunsins 2008?“ Eru tengsl á milli uppsagna á vinnustöðum starfsfólksins, aldurs, kyns, hjúskaparstöðu eða tegundar vinnustaðar annars vegar og líðanar, veikindafjarvista og læknisheimsókna hins vegar? Einnig er skoðað hvort líðan, veikindafjarvistir og læknisheimsóknir séu algengari meðal starfsfólks skólanna en annars starfsfólks sveitarfélaganna. Greinin byggir á langtíma panelgögnum 20 sveitarfélaga og 2971 starfsmanns frá árunum 2010, 2011 og 2013. Svarhlutfallið var 64,5%–84,4%. Niðurstöðurnar sýna að læknisheimsóknir, veikindafjarvistir og það að mæta veikur til vinnu jókst tveimur, þremur og fimm árum eftir bankahrunið haustið 2008. Aukningin var mest á vinnustöðum þar sem uppsagnir starfsfólks höfðu átt sér stað. Konur og yngra fólk virtist veikara en karlar og eldri aldurshópar. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar felur einkum í sér aukna þekkingu á líðan starfsfólks skólanna í kjölfar efnahagskreppa. Aukið álag og óöryggi vegna annarra þátta, svo sem endurskipulagningar starfsmannamála, aðhaldsaðgerða og uppsagna getur reyndar alið af sér sambærilegt ástand, óháð kreppum. Mikilvægt er að skólastjórnendur, þeir sem sinna starfsmannaheilsuvernd og rannsakendur hafi þetta hugfast.
Útgáfudagur: 16.11.2016