„Starfsþjálfun gerir deildina eftirsóknarverðari kost“: Reynsla af starfsþjálfun í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Höfundar: Ásta Dís Óladóttir og Eydís Anna Theodórsdóttir.

Erlendar rannsóknir sýna að mikill ávinningur geti verið fyrir nemendur að fara í starfsþjálfun á því sviði sem þeir eru að mennta sig til. Nemendur öðlist meiri færni og séu líklegri en aðrir til þess að fá starf að námi loknu. Fáar rannsóknir liggja fyrir um ávinning og áskoranir starfsþjálfunar á Íslandi en Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hóf undirbúning að starfsþjálfun árið 2018 og hófst starfsþjálfun fyrir nemendur í grunnnámi og meistaranámi árið 2020. Markmið rannsóknarinnar var að skoða ávinning af starfsþjálfun og þær áskoranir sem nemendur og stjórnendur standa frammi fyrir meðan á starfsþjálfun stendur. Niðurstöður viðtala við 16 aðila leiddu í ljós að bæði nemendur og stjórnendur töldu mikinn ávinning af starfsþjálfun og töldu að hún veitti nemendum dýrmæta reynslu sem nýta megi í atvinnulífinu að námi loknu.