Pör að læra saman í leikskóla: Reynsla starfsfólks af K-PALS

Höfundar: Anna-Lind Pétursdóttir og Kristín Helga Guðjónsdóttir.

K-PALS (e. Kindergarten Peer-Assisted Learning Strategies) er kennslunálgun sem felur í sér samvinnunám og aðferðir til að efla hljóðkerfisvitund, hljóðaþekkingu og umskráningarfærni barna. Börnin vinna í pörum eftir kynningu kennara á verkefnum. Markmið með þessari rannsókn var að fá innsýn í reynslu starfsmanna í leikskóla af K-PALS, hvernig þeim hefði gengið að nota aðferðirnar, áhrif aðferðanna á börnin, helstu kosti og galla að mati starfsmanna og hvort þeim þætti bein kennsla af þessu tagi eiga heima í íslensku leikskólaumhverfi. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við þrettán starfsmenn fimm leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Almennt var reynsla viðmælenda jákvæð þótt sumir hefðu verið neikvæðir í byrjun og innleiðing aðferðanna hafi stundum reynt á. Rætt var um jákvæð áhrif á undirstöðu lestrarfærni, samvinnu og samskipti barnanna, greinilegar framfarir hjá börnunum og ánægju þeirra með K-PALS. Fram komu hugmyndir um nýjar útfærslur á innleiddum aðferðum en á heildina litið töldu viðmælendur nálgunina henta vel sem viðbót við læsisumhverfi í íslenskum leikskólum.

Útgáfudagur: 29.12.2015

Lesa grein