Málþroski leikskólabarna: Þróun orðaforða, málfræði og hlustunarskilnings milli fjögra og fimm ára aldurs

Höfundur: Hrafnhildur Ragnarsdóttir.

Markmið rannsóknar sem hér er kynnt var að kanna a) framfarir og einstaklingsmun meðal íslenskra barna í þremur málþroskaþáttum, orðaforða, málfræði og hlustunarskilningi á lokaári þeirra í leikskóla; b) hvort mælingar á orðaforða, málfræði og hlustunarskilningi tengdust innbyrðis og við bakgrunnsbreytur á borð við menntun og stöðu foreldra, heimilishagi og læsismenningu á heimili, leikskóladvöl og fleira; og c) hvort ‒ og þá hvaða ‒ þættir málþroska við fjögra ára aldur spá fyrir um árangur barna ári síðar. Þátttakendur voru 111 fjögra ára börn úr átta leikskólum í Reykjavík. Niðurstöður staðfesta að meðal íslenskra barna eru síðustu árin í leikskóla mikið gróskutímabil fyrir málþroskaþætti sem gegna lykilhlutverki í alhliða þroska og leggja grunn að læsi og námsárangri síðar. Þær leiða í ljós að munur á málþroska jafngamalla íslenskra barna er þá þegar orðinn verulegur og að sá munur tengist að hluta ýmsum áhættuþáttum í aðstæðum barnanna og fjölskyldna þeirra. Niðurstöður undirstrika þannig hversu mikilvægt er að fylgjast grannt með málþroska og þróun orðaforða, málfræði og hlustunarskilnings barna á leikskólaárunum, ekki síst þeirra sem slakast standa og tryggja að þau fái fjölþætta og vandaða málörvun.

Útgáfudagur: 31.12.2015

Lesa grein