Íþróttaþátttaka íslenskra ungmenna: Þróun íþróttaþátttöku og greining á félagslegum áhrifaþáttum

Höfundur: Viðar Halldórsson.

Þessari grein er ætlað að varpa ljósi á íþróttaiðkun íslenskra ungmenna, skoða þróun skipulagðs íþróttastarfs og sérstaklega að skoða hverjir eru líklegastir til að taka þátt í íþróttum eftir ólíkum leiðum hér á landi. Greinin byggir á viðamiklum gögnum Rannsókna og greiningar á ungu fólki með megináherslu á könnun sem gerð var vorið 2014 meðal nemenda í 8.–10. bekk allra grunnskóla á Íslandi. Niðurstöður sýna að mun fleiri ungmenni stunda nú skipulagt íþróttastarf en árið 1992. Ennfremur hefur hlutfall þeirra sem æfa oft tvöfaldast hjá piltum og nærri þrefaldast hjá stúlkum á þessum árum. Íþróttaþátttaka í íþróttafélögum er mest meðal nemenda í 7. bekk en eftir það dregur jafnt og þétt úr þátttöku ungs fólks í skipulögðu íþróttastarfi. Þátttakan eykst aftur á móti í íþróttum utan íþróttafélaga. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að ýmsir félagslegir þættir hafi áhrif á hvort og með hvaða hætti ungmenni stunda íþróttir. Í þessu samhengi er mikilvægt að líta til þess að félagslegar hindranir geta haldið ákveðnum hópum ungs fólks frá uppeldisvænu tómstundastarfi á borð við skipulagt íþróttastarf.

Útgáfudagur: 20.12.2014

Lesa grein