„Uss, ég er að vinna!“: Áhrif einstaklingsmiðaðra stuðningsáætlana á námsástundun grunnskólanemenda með hegðunarerfiðleika

27.12.2013
Guðrún Björg Ragnarsdóttir og Anna-Lind Pétursdóttir
„Uss, ég er að vinna!“: Áhrif einstaklingsmiðaðra stuðningsáætlana á námsástundun grunnskólanemenda með hegðunarerfiðleika

Í greininni segir frá rannsókn á áhrifum einstaklingsmiðaðra stuðningsáætlana með stighækkandi viðmiðum um frammistöðu á námsástundun grunnskólanemenda með hegðunarerfiðleika. Þátttakendur voru fjórir drengir á aldrinum sjö til átta ára sem höfðu sýnt hegðunarerfiðleika í fimm til sjö ár þrátt fyrir ýmis úrræði. Þrír þátttakenda voru greindir með ADHD, tveir með mótþróaþrjóskuröskun, einn með ódæmigerða einhverfu og einn með almenna kvíðaröskun og Tourette-heilkenni. Virknimat fólst í viðtölum og beinum athugunum til að finna út hvað hefði áhrif á hegðunarerfiðleika þátttakendanna. Kennarar fylgdu áætlununum eftir undir handleiðslu sérkennara og sérfræðings í atferlisíhlutun. Niðurstöður eru í samræmi við fyrri rannsóknir og benda til þess að hægt sé að auka sjálfstæða námsástundun nemenda og viðhalda bættri færni með því að draga smám saman úr umfangi íhlutunar.