Menntakvika 2019

Birt 31.12. 2019

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2019 – Menntakvika 2019 er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjóri: Ingvar Sigurgeirsson. Katrín Johnson annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Greinarnar

Í sérritinu eru þrjár ritrýndar greinar. Auk almenns prófarkalesturs, eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Ávallt er reynt að haga hlutum þannig að annar sérfræðingurinn starfi ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina. Greinarnar nefnast: Staða sögunnar í framhaldsskólum; Þátttaka nemenda í kennslustundum í framhaldsskólum á Íslandi; Innleiðing nýs matskerfis í skyldunámi.

Atli Már Sigmarsson og Bragi Guðmundsson
Staða sögunnar í framhaldsskólum

Viðfangsefni greinarinnar er staða sögukennslu í íslenskum framhaldsskólum og hvernig hún hefur breyst í kjölfar styttingar á námi til stúdentsprófs. Rannsóknin er tvískipt. Fyrst er yfirlit yfir núverandi framboð í íslenskum framhaldsskólum á skylduáföngum í sögu. Einnig voru tekin viðtöl við fjóra sögukennara. Helstu niðurstöður eru að staða sögunnar hefur veikst verulega í kjölfar styttingar á námi til stúdentsprófs. Í um þriðjungi framhaldsskóla er saga ekki skyldugrein á öllum brautum og framboð á söguáföngum er mjög mismunandi. Skólastjórnendur og skólahefð virðast skipta miklu máli.

Hafrún Hafliðadóttir, Elsa Eiríksdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Þátttaka nemenda í kennslustundum í framhaldsskólum á Íslandi

Þátttaka nemenda í kennslustundum í níu íslenskum framhaldsskólum var rannsökuð. Algengustu birtingarmyndir þátttöku nemenda í kennslustundum voru að þeir unnu verkefni og spurðu kennara um námsefnið. Í um helmingi kennslustundanna kom einnig fram að nemendur sýndu athygli og ræddu um viðfangsefnið. Niðurstöður benda til þess að þátttaka nemenda í kennslustundum tengist ekki hvaða kennsluaðferðir eru notaðar. Niðurstöðurnar undirstrika líka mikilvægi þess að gefa viðmóti og athöfnum kennara gaum í samhengi við námslega skuldbindingu nemenda.

Meyvant Þórólfsson
Álitamál tengd innleiðingu hæfnimiðaðs námsmats í skyldunámi

Rannsóknarstofa um námskrár, námsmat og námsskipulag stóð fyrir tveimur málþingum á vordögum 2019. Undanfarin misseri hefur átt sér stað umræða um nýtt námsmatskerfi í skyldunámi eins og það er kynnt í núgildandi aðalnámskrá. Markmið greinarinnar er að rýna í nokkur álitamál tengd þessu með vísan í rannsóknir og kenningar annars vegar og hins vegar erindi þeirra sem töluðu á málþingunum. Meginniðurstaða höfundar er að víðtækt mat á hæfni stuðli að auknu réttmæti og þar með sanngjarnara mati.