Menntakerfi og heimili á tímum COVID-19

Birt 31.12. 2020

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2020 – Menntakerfi og heimili á tímum COVID-19 er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjórar: Jóhanna Thelma Einarsdóttir, Jón Ingvar Kjaran og Meyvant Þórólfsson. Katrín Johnson annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Greinarnar

Í sérritinu eru 13 greinar alls – tveimur er ritstýrt og 11 eru ritrýndar. Tvær greinanna eru á ensku en hinar á íslensku. Auk almenns prófarkalesturs eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Greinarnar nefnast: Skólasókn og samstarf við foreldra leikskólabarna með fjölbreyttan bakgrunn á tímum COVID-19, Sýn barna á kórónuveiruna og áhrif hennar á þátttöku þeirra í daglegu starfi í leikskóla, Kófið og leikskólinn: „Þetta var mögnuð „tilraun“ til að sjá gæðastarf verða til við skrítnar aðstæður“, „Covid bjargaði mér“: Störf kennara í fyrstu bylgju heimsfaraldurs, Tengslin við heimilin trosnuðu merkilega lítið í fyrstu bylgju COVID-19: Frá sjónarhorni stjórnenda og grunnskólakennara, Reynsla og upplifun þroskaþjálfa í grunnskóla af áhrifum Covid-19 faraldursins á þjónustu við nemendur, Frásagnir barna á tímum COVID-19, Reynsla stjórnenda félagsmiðstöðva og frístundaheimila á tímum samkomubanns vorið 2020 vegna COVID-19, Fjarkennsla í faraldri: Nám og kennsla í framhaldsskólum á tímum samkomubanns vegna COVID-19, Fjarkennsla og stafræn tækni í framhaldsskólum á tímum farsóttar vorið 2020: Sjónarhóll kennara og stjórnenda, Surfing a Steep Learning Curve: Academics’ experience of changing teaching and assessment due to COVID-19, Skipulagið er komið út í bílskúr: Fjölskyldulíf, heimanám og COVID-19 og “This is the first time as a foreigner that I have had such a strong connection to the state”: Parents’ voices on Icelandic school staying open in the time of COVID-19.

Leikskólinn

Ritrýnd grein

Jóhanna Einarsdóttir og Eyrún María Rúnarsdóttir
Skólasókn og samstarf við foreldra leikskólabarna með fjölbreyttan bakgrunn á tímum COVID-19

Í fyrstu bylgju COVID-19 faraldursins voru settar á fjöldatakmarkanir og þurftu leikskólar, sem og aðrir, að laga sig að þessum veruleika með tilheyrandi viðveru- og tímaskerðingum. Niðurstöður rannsóknarinnar sem hér er kynnt sýna að börn af erlendum uppruna sóttu síður leikskóla en önnur börn og að sumir foreldrar fóru frekar eftir upplýsingum frá upprunalandi sínu en leiðbeiningum íslenskra yfirvalda. Rannsóknin sýnir að brýnt er að standa betur að upplýsingagjöf til foreldra af erlendum uppruna. Þær ályktanir má draga af niðurstöðum rannsóknarinnar að breytingarnar á starfsháttum leikskóla og skerðing á skólasókn geti haft margþætt áhrif hlutverk leikskólans.

Ritrýnd grein
Sara M. Ólafsdóttir, Kristín Karlsdóttir og Díana Lind Sigurjónsdóttir
Sýn barna á kórónuveiruna og áhrif hennar á þátttöku þeirra í daglegu starfi í leikskóla

Markmið þessarar rannsóknar var að komast að því hvernig börn upplifðu leikskólastarf í fyrstu bylgju COVID-19 faraldursins. Tilgangurinn var að læra af börnunum og nýta þá þekkingu sem skapaðist til þess að styðja betur við þau á fordæmalausum tímum. Helstu niðurstöður eru að börnin sýndu töluverða þekkingu á kórónuveirunni og þeim áhrifum sem hún hafði a daglegt starf í leikskólanum. Niðurstöður undirstrika mikilvægi þess að taka mið af sjónarmiðum barna og hlusta á fjölbreytta tjáningu þeirra svo að styðja megi betur við þarfir þeirra og vellíðan í daglegu starfi leikskólans á tímum takmarana sem og aðra daga.

Ritrýnd grein
Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir og Svava Björg Mörk
Kófið og leikskólinn: „Þetta var mögnuð „tilraun“ til að sjá gæðastarf verða til við skrítnar aðstæður“

Markmið rannsóknarinnar sem hér er fjallað um var að skoða áhrif takmarkana á leikskólastarf í fyrstu bylgju COVID-19 faraldursins, á leik barna og hlutverk leikskólakennara og starfsfólks, auk þess að skoða hvaða lærdóm mætti draga af reynslunni. Niðurstöður benda til þess að takmarkanirnar hafi haft töluverð áhrif á leikskólastarf í landinu. Stjórnendur starfið hefði einkennst af meiri gæðum og að áhrif af takmörkunum hefðu skilað sér í aukinni vellíðan barna og fullorðinna. Í ástandinu höfðu börn minna aðgengi að leikefni, einhverjir starfsmenn upplifðu einmanaleika og sum barnanna söknuðu vina sinna. Rannsóknin eykur skilning á áhrifum takmarkana vegna COVID-19 á leikskólastarf.

Grunnskólinn og frístundastarf

Ritrýnd grein
Kristín Björnsdóttir og Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir
„Covid bjargaði mér“: Störf kennara í fyrstu bylgju heimsfaraldurs

Vorið 2020 raskaðist skólastarf vegna COVID-19 heimsfaraldursins og breytingar urðu á kennsluháttum og skipulagi. Í greininni er sagt frá rannsókn á upplifun og reynslu kennara í grunnskólum án aðgreiningar á tímum COVID-19. Niðurstöður benda til þess að þeir kennarar sem tóku þátt í rannsókninni hafi bæði upplifað jákvæð og neikvæð áhrif COVID-19 faraldursins á störf sín og líðan. Þeir töldu stýringu og eftirlit með skólastarfi breytast og upplifðu aukið frelsi. Niðurstöðurnar sýna að jákvæðar afleiðingar af skertu skólastarfi snerta síður þá nemendur sem standa höllum fæti í skólakerfinu sökum fötlunar, heimilisaðstæðna og uppruna.

Ritrýnd grein
Kristín Jónsdóttir
Tengslin við heimilin trosnuðu merkilega lítið í fyrstu bylgju COVID-19: Frá sjónarhorni stjórnenda og grunnskólakennara

Viðvera nemenda minnkaði í langflestum grunnskólum vorið 2020 þegar fyrsta bylgja COVID-19 gekk yfir. Þessi rannsókn beinist að viðhorfum skólastjórnenda og kennara. Niðurstöður sýndu að þeim var ljóst að aðstæður nemenda til náms heimavið væru mismunandi. Kennarar vörðu meiri tíma en venjulega í undirbúning kennslu og kennsluna sjálfa, sem og í upplýsingamiðlun og samskipti við heimilin, en nokkuð þótti skorta á þátttöku foreldra í námi barna sinna. Kennarar og stjórnendur lýstu áhyggjum af slakri mætingu nemenda af erlendum uppruna og þeirra með veikt bakland. Tengsl skóla og heimila styrktust á tímabilinu þrátt fyrir álag í samfélaginu en neikvæð áhrif fyrstu bylgju faraldursins virðast helst hafa bitnað á viðkvæmum hópum.

Ritrýnd grein
Ruth Jörgensdóttir Rauterberg og Anna Björk Sverrisdóttir
Reynsla og upplifun þroskaþjálfa í grunnskóla af áhrifum Covid-19 faraldursins á þjónustu við nemendur

Vorið 2020 var í fyrsta skipti sett á samkomubann á Íslandi sem einnig náði til grunn- framhalds- og háskóla. Í þessari grein er sjónum beint að upplifun þroskaþjálfa í grunnskóla á þjónustu við nemendur sem þurfa margvíslegan stuðning í námi og félagslegum samskiptum. Niðurstöður gefa til kynna að þjónusta við nemendur með margvíslegar stuðningsþarfir hafi skerst meira en hjá öðrum og vísbendingar eru um að jaðarsetning og einangrun nemenda hafi aukist hjá þeim sem stóðu höllum fæti félagslega. Niðurstöðurnar vekja spurningar um hvernig hægt sé að tryggja öllum börnum jafnrétti og aðgengi að menntun og félagslegri þátttöku í áframhaldandi heimsfaraldri.

Ritstýrð grein
Umboðsmaður barna – Salvör Nordal, Sigurveig Þórhallsdóttir og Eðvald Einar Stefánsson
Frásagnir barna á tímum COVID-19

Umboðsmaður barna leggur í starfi sínu áherslu á 12. grein Barnasáttmálans sem kveður á um rétt barna til þess að taka þátt í samfélagslegri umræðu og að tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra. Í greininni er fjallað um frásagnir barna og ungmenna um það að vera barn á tímum kórónuveirunnar og hvernig faraldurinn hafði áhrif á líf þeirra vorið 2020. Til að fá upplýsingar um það hvernig börn upplifðu þennan tíma voru send bréf til allra grunnskóla og óskað eftir frásögnum barna og ungmenna. Með sjónarmiðum barna má draga lærdóm af reynslu þeirra.

Ritstýrð grein
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Ársæll Már Arnarsson og Steingerður Kristjánsdóttir
Reynsla stjórnenda félagsmiðstöðva og frístundaheimila á tímum samkomubanns vorið 2020 vegna COVID-19

Í greininni er fjallað um áhrif samkomubanns vegna COVID-19 hafði starfsemi og þjónustu frístundaheimila og félagsmiðstöðva á Íslandi vorið 2020. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á viðhorf og reynslu stjórnenda af þessu. Niðurstöður sýndu að starfsumhverfi félagsmiðstöðva og frístundaheimila á þessu tímabili var umtalsvert ólíkt – starfsemi flestra félagsheimila lá niðri en flest frístundaheimili tóku á móti börnum allan tímann. Erfiðar gekk að virkja börn af erlendum uppruna til þátttöku á þessum tíma. Mikilvægt er að stuðla að aðgengi barna að öflugu frístundastarfi á tímum heimsfaraldurs og veita þarf stjórnendum og starfsfólki í frístundastarfi aukinn stuðning.

Framhaldsskólinn

Ritrýnd grein
Súsanna Margrét Gestsdóttir, Guðrún Ragnarsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Elsa Eiríksdóttir
Fjarkennsla í faraldri: Nám og kennsla í framhaldsskólum á tímum samkomubanns vegna COVID-19

Sú heimskreppa sem orðið hefur vegna COVID-19 hefur haft mikil áhrif á starf framhaldsskóla – allt staðnám færðist yfir í fjarnám. Markmið greinarinnar er að skoða hvernig framhaldsskólakennarar tókust á við nýjan raunveruleika á meðan á samkomubanninu stóð, hvernig kennsluhættir breyttust og mat þeirra á námsgengi nemenda. Niðurstöður sýna að framhaldskólakennurum tókst að bregðast hratt við ástandinu og halda úti kennslu í breyttri mynd. Flestir kennarar réðu kennslufyrirkomulagi að mestu sjálfir og töldu sig ekki fá mikinn stuðning frá skólum sínum. Greinin er mikilvægt innlegg í umræðu um fyrirkomulag fjarkennslu í neyðarástandi og sýnir hvers megnug kennarastéttin var í COVID-19.

Ritrýnd grein
Þuríður Jóna Jóhannsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir
Fjarkennsla og stafræn tækni í framhaldsskólum á tímum farsóttar vorið 2020: Sjónarhóll kennara og stjórnenda

Þegar loka þurfti framhaldskólum á Íslandi vegna heimsfaraldursins COVID-19 á vorönn 2020 var tekin upp fjarkennsla á netinu. Hér er kynnt rannsókn sem snerist um hvernig skólar og kennarar tókust á við verkefnið og hvaða lærdóm má draga af. Niðurstöður benda til þess að skólar hafi verið fremur vel í stakk búnir til að takast á við aukið fjarnám. Helstu áskoranir sýndu sig vera að halda sambandi við nemendur og passa að þeir gæfust ekki upp. Álag á kennara jókst og vinnuaðstæður þeirra voru oft krefjandi. Reynslan af netkennslu opnaði augu kennara fyrir nýjum tækifærum og sumir töldu líklegt að sveigjanleiki í skólastarfi myndi aukast í framhaldinu. Efling tæknifærni kennara er brýnt verkefni til að stuðla að þróun náms og kennslu í framtíðinni.

Háskólinn

Ritrýnd grein
Guðrún Geirsdóttir, Marco Solimene, Ragna Kemp Haraldsdóttir and Thamar Heijstra
Surfing a Steep Learning Curve: Academics’ experience of changing teaching and assessment due to COVID-19

This paper examines how academic teachers at the University of Iceland dealt with a sudden shift in their teaching practices during COVID-19 in the spring of 2020. The data reveal that despite being pushed outside their comfort zone in many aspects of teaching, interactions and technology, the teachers managed to fulfil different roles and the experiences show the implications of COVID-19 for future teaching at UI. Finally the study emphasizes the importance of peer-learning, peer support and feedback from colleagues in professional developement when the learning curve is steep.

Foreldrar og heimilið

Ritrýnd grein
Annadís Greta Rúdolfsdóttir og Auður Magndís Auðardóttir
Skipulagið er komið út í bílskúr: Fjölskyldulíf, heimanám og COVID-19

Markmið rannsóknarinnar var að greina kynjaðar hugmyndir þátttakenda um uppeldishlutverk foreldra sem birtast í sögum um heimanám barna á tímum COVID-19. Þrjú meginþemu voru greind – togstreita um tíma, glíma við heimanám og bugaðir foreldrar sem rísa upp gegn óraunhæfum kröfum. Niðurstöður sýna að þær aðstæður sem sköpuðust í samkomubanninu skerpa átakalínur milli heimila og samfélags og átakalínur innan heimila. Þær lýsa einnig kvíða og sektarkennd sem fylgir því að geta ekki fylgt leikreglum nýfrjálshyggjuorðræðunnar.

Ritrýnd grein
Elizabeth B. Lay og Brynja E. Halldórsdóttir
“This is the first time as a foreigner that I have had such a strong connection to the state”: Parents’ voices on Icelandic school staying open in the time of COVID-19

Iceland was one of very few countries to keep preschools and compulsory schools at least partially open throughout the first wave of the COVID-19 pandemic. This study explores how parents responded to the government strategy of continuing children´s schooling in a crisis. The aim was to understand parents´ perspectives. Findings indicate that the majority of both the Icelandic and immigrant parents were optimistic and trusted the schools´and authorities recommendations. This study contributes to our understanding of the significance of parental social networks for civic engagement in the time of COVID-19.