Menntaumbætur og afdrif þeirra: Fyrstu tíu ár heildstæðrar þjónustu og reksturs grunnskóla hjá Reykjavíkurborg 1996-2005

Birt 13.2. 2022

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2022 – Menntaumbætur og afdrif þeirra: Fyrstu tíu ár heildstæðrar þjónustu við reksturs grunnskóla hjá Reykjavíkurborg 1996-2005 er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjóri: Jón Torfi Jónasson. Katrín Johnson annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Anna Kristín Sigurðardóttir, Gerður G. Óskarsdóttir, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Ingunn Gísladóttir og Steinunn Stefánsdóttir.
Menntaumbætur og afdrif þeirra: Fyrstu tíu ár heildstæðrar þjónustu og reksturs grunnskóla hjá Reykjavíkurborg 1996–2005.

Stefnumörkun og umbótaverkefni á vegum opinberra aðila til að efla og bæta skólastarf er hluti af þróun skóla og skólakerfa um allan heim. Í þessu riti er sjónum beint að menntaumbótum hjá Reykjavíkurborg og afdrifum þeirra í kjölfar tímamóta í sögu grunnskóla hér á landi þegar þjónusta við þá og rekstur fluttist frá ríki til sveitarfélaga. Niðurstöður benda til að áherslur í stefnunni sem snertu ytri umgjörð skólastarfs séu enn við lýði. Kall grunnskólakennara eftir faglegri forystu skólastjórnenda bendir til að áhersla á leiðtogahlutverk stjórnenda hafi ekki náð fullri fótfestu. Áhrifin af stefnu um nám og kennslu undir merkjum einstaklingsmiðaðs náms voru meiri í orði en á borði og þrátt fyrir áherslu á víðtækt samstarf og margvíslegan stuðning með símenntun og ráðgjöf náði stefnan ekki að festa rætur í daglegu skólastarfi, þótt hugtakið lifi góðu lífi í opinberri umræðu. Niðurstöður á þessu sviði studdu kenningar um sífellda endurtekningu eldri hugmynda og íhaldssemi í kerfinu. Á heildina litið virðist sú stefnumörkun og þær umbótaaðgerðir sem ráðist var í á tímabilinu sem hér er til skoðunar engu að síður hafa einkennst af flestum þeim þáttum sem fræðimenn hafa talið farsæla.